Eitt af því sem fylgdi þessu skemmtilega bloggi sem tölvan át var bráðskemmtileg saga af einu af afkvæmunum á heimilinu. Það skal tekið fram að öll hafa greyin fengið bráðabirgða nöfn sem hæfa útliti þeirra. Nöfnin eru einungis til aðhægt sé að þekkja þau í sundur þegar talað er um þau, ein heitir Branda, ein heitir Skjalda, ein heitir Symetría og strákurinn eini heitir Pjakkur.
Sagan er af Symetríu, sem fékk þetta skemmtilega nafn af því að hún er symetrísk, og því þegar hún sagði bleikum sandala dóttur minnar stríð á hendur. Sandalinn lá í sakleysi sínu á svefnherbergisgólfinu þar sem gálaus eigandinn hafði skilið hann eftir í stað þess að fara úr honum í forstofunni eins og lög gera ráð fyrir. Symetríu leist ekkert á þetta bleika skrímsl og sagði því óðara stríð á hendur. Í fyrstu virtist bardaginn nokkuð jafn en svo sagði reynsluleysið og aldurinn til sín og sandalinn náði yfirhöndinni. Vesalings Symetría sem hélt að hún væri allra kisa hugrökkust varð að játa sig sigraða þar sem hún sat í sandalanum alveg pikk föst og horfði mjög aumkunarverð á mig. Hún átti þó síðasta leikinn því áður en ég bjargaði henni úr klóm sandalans gerði hún sér auðvitað lítið fyrir og pissaði í hann, eigandanum sem var á leiðinni á skátamót í sandalanum, til óblandinar ánægju.
Svo heppilega vildi til að ég náði myndum af öllu saman og læt ég þær fylgja með að ganni, ásamt myndum af gullfallegum systkinum Symetríu.
Púðursykur og króna þegar mér er mikið mál þá pissa ég bara í skóna.