föstudagur, júlí 29, 2005

Sú ólétta

Ég var búin að lofa því fyrir löngu að bæta þeirri óléttu inn á linkalistann minn. Nú hef ég staðið við það loforð og finnst mér það vel við hæfi nú þegar sú ólétta er hætt að vera ólétt og lítill strákur kominn í heiminn. Til hamingju með það, bæði barnið og að vera komin inn á listann hjá mér.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Iss piss og pela mál.....

Eitt af því sem fylgdi þessu skemmtilega bloggi sem tölvan át var bráðskemmtileg saga af einu af afkvæmunum á heimilinu. Það skal tekið fram að öll hafa greyin fengið bráðabirgða nöfn sem hæfa útliti þeirra. Nöfnin eru einungis til aðhægt sé að þekkja þau í sundur þegar talað er um þau, ein heitir Branda, ein heitir Skjalda, ein heitir Symetría og strákurinn eini heitir Pjakkur.

Sagan er af Symetríu, sem fékk þetta skemmtilega nafn af því að hún er symetrísk, og því þegar hún sagði bleikum sandala dóttur minnar stríð á hendur. Sandalinn lá í sakleysi sínu á svefnherbergisgólfinu þar sem gálaus eigandinn hafði skilið hann eftir í stað þess að fara úr honum í forstofunni eins og lög gera ráð fyrir. Symetríu leist ekkert á þetta bleika skrímsl og sagði því óðara stríð á hendur. Í fyrstu virtist bardaginn nokkuð jafn en svo sagði reynsluleysið og aldurinn til sín og sandalinn náði yfirhöndinni. Vesalings Symetría sem hélt að hún væri allra kisa hugrökkust varð að játa sig sigraða þar sem hún sat í sandalanum alveg pikk föst og horfði mjög aumkunarverð á mig. Hún átti þó síðasta leikinn því áður en ég bjargaði henni úr klóm sandalans gerði hún sér auðvitað lítið fyrir og pissaði í hann, eigandanum sem var á leiðinni á skátamót í sandalanum, til óblandinar ánægju.

Svo heppilega vildi til að ég náði myndum af öllu saman og læt ég þær fylgja með að ganni, ásamt myndum af gullfallegum systkinum Symetríu.

Púðursykur og króna þegar mér er mikið mál þá pissa ég bara í skóna.


Hér er hún greinilega búin að tapa. Lætur gossa í skóinn og bíður eftir að ég bjargi henni. Posted by Picasa


Hér heldur hún enn að hún hafi yfirhöndina. Posted by Picasa


Maður er nú bara ekkert smá sætur. Posted by Picasa


Allur hópurinn. Posted by Picasa


Symetría og Skjalda kúra sig. Posted by Picasa


Branda og Pjakkur kúra sig. Posted by Picasa

Skömm og synd

Kvöld eitt, fyrir ekki svo löngu síðan, settist ég fyrir framan tölvuna eftir alllanga fjarveru og setti saman afsökunarblogg og fréttablogg. Blogg þetta innihélt sem sagt afsökunarbeiðni mína til beggja lesenda minna á þessari löngu fjarveru og fréttir af því sem ég hef haft fyrir stafni á meðan ég var í burtu, auðvitað var líka skotið að alskonar afsökunum á téðri fjarveru, veðrið var gott, sætastur í sumarfríi og Harry Potter. Þetta umrædda blogg var bæði langt og skemmtilegt, svo skemmtilegt að ég stóð sjálfa mig að því að brosa út í annað og jafnvel hlæja mjög lágt yfir egin kerskni og skemmtilegt heitum. Það er skemst frá því að segja að tölvukvikindið át bloggið sem aldrei leit dagsins ljós á veraldarvefnum.

Þið, báðir lesendur mínir, verðið bara að taka orð mín um að það hafi verið bæði fræðandi og skemmtilegt trúanleg og halda í vonina að ég sé ekki alveg hætt að blogga.