þriðjudagur, desember 21, 2004

Ef ég ekki logga mig inn fyrir jól óska ég landsmönnum öllum (því flestir líta jú við á blogginu mínu he he he he), til sjávar og sveita gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Á mínu heimili hefur verið þvertekið fyrir að taka þátt í nokkru sem heitir jólastress. Við erum fjarri því að vera búin að öllu en við höfum ákveðið að njóta aðventunnar fremur en að hlaupa í gegnum hana í einum spreng. Móðir mín elskuleg hefur nagandi samviskubit yfir því að hafa dregið mig á tálar í gær þar sem allur dagurinn fór í að dandalast með henni og litlusystur í smáralindinni. hugsið ykkur bara allt rykið sem ég hefði getað verið að þurrka á þessum sama tíma. Í tilefni af þessu hefur hún ákveðið að kíkja í Kópavoginn á morgun vopnuð ræstidufti og klór til þess að aðstoða mig við undirbúninginn. Ég tek auðvitað fagnandi á móti henni, einkum vegna þess að mér finnst hún skemmtilegur félagsskapur og svo ætlar hún að stytta fyrir mig gardínur ekki af því að mér sé ekki sama um rykið.

Þetta helst, tveir eru búinir að eiga þrítugsafmæli. Ég margreyndi að hringja í Dabbíló á afmælisdaginn en ekkert gekk. Hún kemur sko til landsins á morgun í tilefni jólanna svo ég fæ að sjá hana. Ég ætlaði líka að vera voða dugleg og mæta í afmælið hans Snorrgils þegar ég var búin í matarboðinu sem ég var í en maður hefur bara svo og svo mikla orku í djamm og mín djammorka var búin það kvöldið; Sorrí Snorrí ég kem bara næst þegar þú verður þrítugur (hmmm það er eins og mig minni að Snorri hafi ekki mætt í mitt þrítugsafmæli... allt samviskubit er því látið lönd og leið). Um fólkið sem stakk af til Bahamas segjum við sem minnst. Það er ekki eins og ég hafi ætlað að koma í þorláksmessuheimsókn í fyrsta skipti.....

sunnudagur, desember 12, 2004

Þá er maður bara búinn að kalla til stórskotaliðið. Fyrst Magga Dóra svo Ívar og að lokum var það svo ástin eina sem fann lausnina. Það var ekkert að templatinu commentin voru bara stillt á „hide“. Snjall þessi elska.

Helgin er búin að vera með skemmtilegasta móti. Hrauntónleikar á föstudaginn þar sem vinir og vandmenn fóru hreinlega á kostum. Aðeins of mikill bjór og huggulegur göngutúr um miðbæinn til að skoða jólaljósin áður en haldið var í háttinn. Datt í hug að fá okkur tekíla á Austuvelli eins og mamma um árið en hættum við af því það voru engir aðventutónleikar í dómkirkjunni.

Á laugardeginum datt okkur í hug, eins og einum eða tveimur öðrum, að kíkja í búðir. Það gekk, þrátt fyrir hversu andfélagslega innrætt ég er, bara nokkuð vel. Það lá svo vel á okkur að stressið í hinum káfaði ekkert upp á okkur. Það er að segja alveg þangað til Eymundson ákvað að bjóða gestum og gangandi upp á lifandi Árna Johnsen. Þá ákváðum við að það væri tímabært að yfirgefa Smáralindina enda kominn tími til að lappa eitthvað upp á andlitið fyrir átök kvöldsins. Dressmönnum og konum var nefninlega boðið í jólahlaðborð á Brodway. Ég verð að segja að ég átti ekki von á að skemmta mér sérlega vel „Brodway“ og „Sjó“ hefur hingað til alls ekki verið minn tebolli. Ég hins vegar tjúttaði af mér rassgatið (ef ég má vera pínulítið gróf). Maturinn var æðislegur og sjóið, Með næstum allt á hreinu reyndist hin besta skemmtun þar sem ótrúlegasta fólk, eins og Jónsi hinn svartklæddi fór á kostum. Andrea og Valur Freyr voru frábær, Björn Ingi var ágætur og jafnvel Margrét Eir var þolanleg. um Lindu Ásgeirsdóttur segi ég sem minnst, henni er eftir því sem ég kemst næst gjörsamlega fyrirmunað að vera skemmtileg, soldið svona eins og teletubby (imbamalli) á örvandi lyfjum

Staðan í dag er nokkurn veginn sú að röddin er farin veg allrar veraldar, þreyta hefur læst um sig í beinum, höfði og augum og viðvarandi græðgi hefur sest að í mallanum. Til allrar lukku lítum mánudagurinn þannig út að ég er með próf í þremur tímum og vídeó í tveimur svo ég þarf ekki mikið að þenja raddböndinn. Annars var ég að hugsa um að fá að fara á svið í gærkvöldi þegar kynæsandi hása röddin gerði vart við sig og syngja „smelly cat“ það hefði aldeilis verið sniðugt.

Bjargvætturinn ólétti í Grafarvoginum er búin að bjóða í kaffi og með því svo það er best að drífa sig.

Næsta helgi er plönuð frá föstudegi til sunnudags rétt eins og þessi svo það lofar góðu.

Í efsta sæti á óskalistanum fyrir jólin.......míkrafónar fyrir kareoke dvd spilarann minn...hans...okkar.

Gott í bili.

Vinsamlega go crasy í fína commentakerfinu.

Comment! Come Hither!

þriðjudagur, desember 07, 2004

Þetta fannst mér einu sinni skemmtilegt að gera. Gott að rifja það upp aftur núna þegar ég er vöknuð til lífsins.


You are 73% Pisces


How much do you match your zodiac sign?



Heppilegt að ég hef alltaf talið stjörnumerkjapælingar álíka skynsamlegar og árunudd.

Í fyrsta skipti frá því elstu menn muna er Rannveig ekki í prófum í desember. Það þarf enginn að veltast í vafa um að það er dásamleg tilfinning. Ég er nú þegar búin að föndra öll jólakortin, hengja upp jólagardínurnar, skreyta hálft húsið og gera tiltölulega fínt heima hjá mér. Hefðin er auðvitað sú að lifa í drullu og skít upp að hnjám allan desembermánuð og rimpa þessu svo öllu af tveimur klukkutímum fyrir jól. Gelðileg jól. Ég er ekki alveg viss um að krílið mitt komist í jólaskap með þessu móti, hún er svo vön hinni aðferðinni.

Við erum nú samt búnar að gera æði margt jólalegt eins og að búa til laufabrauð, kaupa slatta af jólagjöfum, horfa á þegar kveikt var á jólakrækiberjalynginu (sem mér skilst að sé stærra en Oslóarkrækiberjalyngið á Austurvelli) í Þolló og jólaföndra með 2. bekk í Kópavogsskóla. Þar tókst mér að slá nýtt met í jólaföndri þegar ég jólaföndraði buxurnar mínar við lærið á mér, geri aðrir betur. Ég er auk þess búin að fara á tvenna aðventutónleika sem voru báðir alveg ágætir.

Framundan eru endalaus jólahlaðborð, jólaboð og skemmtanir framundir áramót svo ég brosi eins blítt og mér er frekast unt. Aldrei haft það betra á aðventunni og hefur þó litli jólaengillinn ég alltaf haft það gott.