miðvikudagur, júní 06, 2007

Mamma

Ég er móðir. Ég er meira að segja búin að vera móðir í rúm 10 ár og er löngu orðin vön þeim titli og finnst nákvæmlega ekkert skrýtið við það. Nýlega varð ég svo móðir í annað sinn. Sætastur sagði við mig þegar stundin nálgaðist „þú ert að verða mamma“. Ég flissaði og benti honum á að þó að pabba titillinn væri honum nýlunda væri ég nú innvígð fyrir nokkru. Nýja barnið er alveg yndislegt og mér finns ég óskaplega rík að eiga þessar tvær dömur en ég er samt alls ekki búin að venjast því að ég er mamma hennar Iðunnar. Ég er mamma hennar Kolfinnu og er búin að vera það lengi, ekkert skrýtið við það. En mér finnst ennþá pínulítið eins og ég sé með Iðunni í láni og þurfi á endanum að skila henni. Ég man ekki lengur hvort að mér leið svona þegar Kolfinna var lítil, hvort ég er bara búin að venjast henni.

Hitt er alveg ljóst að ef svo einhver kæmi til að krefja mig um að skila barninu kæmi það vitaskuld aldrei til geina.

þriðjudagur, júní 05, 2007

Flottur dagur

í dag er fimmti júní 2007:

050607

Töff dagur.

Ég óska öllum sem fæðast í dag innilega til hamingju með kennitöluna.

Hraunaði

Um síðustu helgi. Nei það var víst helgina þar áður. skellti ég mér aftur í hóp hinna lifandi og kíkti á útgáfutónleika/ball/djamm Hrauns í leikhúskjallaranum. Það minnti mig á hversu mér þykir það skemmtilegt svo að nú verður allt sett á fullt í að gera pínkubarnið passhæft svo hægt verði að kíkja út á galeiðuna endrum og eins. Að vanda tóku Hraun eightiesteiknimyndatitiillagasyrpuna (He-Man, Transformers, Thundercats o. s. frv.) og það hvarflaði að mér að það vantar sárlega þarna inn kvenhetju. Þess vegnga ætla ég að setjast niður og læra titillagið úr Jem and the Holograms og láta þá bæta því við á næsta giggi.

Fór með pínkubarnið í heimsókn til dagmömmunnar í fyrradag. Þá fer víst að styttast í raunveruleikann.