Færslur síðustu daga hafa að mestu verið færðar í stuttum stikkorðum; þreytt, ammæli, mikið að gera, illt í maganum o.s.v. Ástæðan hefur vitaskuld verið sú að ég hef verið þreytt, það hefur verið mikið að gera en kannski ekki sú að mér var illt í maganum, það voru svona aukaupplýsingar öðrum til ánægju og yndisauka. Nú er mál að linni og mín ætlar að skrifa langa og greinagóða færslu áður en hún snýr sér aftur að því sem hún á að vera að gera, nemlich arbeiten.
Í fyrrakvöld var framhaldsstofnfundur
Femínístafélags Íslands í Hlaðvarpanum. Það var sko mikil ósköp skemmtilegt, breiddin í hópnum var mikil og stemningin góð, nokkur kunnugleg andlit og enn fleiri ný. Nokkuð kom mér á óvart að hitta vinkonu mína
Möggu Dóru þar sem ég hélt ég vissi nokkuð hvar hún stæði gagnvart femínísma. Það stóð líka heima, ég kom að henn i þar sem hún var, að áeggjan móður sinnar, að reyna að fylla út skráningarblaðið í Femínístafélag Íslands en eftir mikla baráttu við sjálfa sig henti hún frá sér pennanum og sagðist ekki geta skrifað undir jafnréttisbaráttu sem væri eingöngu í nafni annars kynsins. Því spyr ég nú.....
Magga mín, er það einfaldlega málfræðin sem er að þvælast fyrir þér, er það bara
femín í femínísti sem pirrar þig. Geturðu skrifað að öðru leyti undir þá réttindabaráttu sem grasrótarhreyfing eins og Femínístafélag Íslands ætlar sér í?
Finnst þér að eftir aldalanga kúgun feðraveldisins og áratuga baráttu við að brjóta það á bak aftur engin ástæða til að halda áfram. Finnst þér jafnrétti hafa verið náð, tækifærin þau sömu, launamunur og fæð kvenna í stjórnunarstöðum skýrist væntanlega af aumingjaskap þeirra og framtaksleysi?
Jafnréttisbarátta í nafni annars kynsins segirðu og fussar. Hvar hallar á karlkynið? Á hversu mörgum vígstöðvum þurfa karlmenn að berjast fyrir sömu réttindum og konur? Hversu víða hafa réttindi karla verið fótum troðin á kostnað réttinda kvenna?
Hverjir hafa barist ötullegast fyrir bættum réttindum karla þar sem þeir hafa orðið undir. Fyrir aukinni þátttöku karla í uppeldi barna sinna, rettinum til fæðingarorlofs og bættri stöðu karla í umönnunar, uppeldis og kennslustörfum.
Þetta er ekki árás á þig Magga mín, þú ert bara svo ágætis skotmark til að koma hugsunum mínum á framfæri. Ég á svo bágt með að skilja hvernig hægt er að vera ung, hámenntuð kona í dag og vera ekki femínísti. Ég lít ekki og hef aldrei litið á karlmenn sem óvininn, í það minnsta ekki hér á landi þar sem við njótum í það minnsta allra grundvallarmannréttinda sem við þurfum á að halda. Kerfið, hefðin og tíðarandinn fléttast saman í minn ímyndaða óvin og hann verð ég að brjóta á bak aftur.
Klámvæðing afþreyjingarmenningarinnar er mér mikið áhyggjuefni. Kynlíf selur nánast hvað sem er og ekki bara kynlíf heldur það sem hingað til hefur verið túlkað sem jaðarhegðun með ýmiskonar blætisdýrkun þar sem fyrirmyndirnar eru sóttar í menningu sadó-masókisma eða jafnvel barnaklám. Tónlistastöðvar eins og Popp-TíVí gefa hefðbundum klámstöðvum ekki eftir í hlutgerfingu unga fólksins sem „skreytir“ myndböndin þeirra. Enn eru konur og barnungar stúlkur í miklum meirihluta þeirra kjötskrokka sem fást í kaupbæti með tónlistinni sem verið er að selja (ég skirrist við að nota orðið kyntákn hér því það er á hærra plani en það sem hér um ræðir). Hlutur karla á þessum vettvangi er þó að færast í aukanna án þess að það hafi verið sérstakt baráttumál, það gerir sýninguna bara enn sorglegri og viðurstyggilegri. Léttklæddir karlar kalla á enn léttklæddari konur og klámfengnara látbragð. Hugmyndir blessaðra barnanna, sem alast upp við þetta, um kynlíf hljóta að vera einhver ósköp á skjön og hluti af ávinningnum eru æ fleiri nauðganir, aukið ofbeldi og anorexíu sjúklingar í hverri fjölskyldu. Nýliðun ungra pilta í raðir anorexíusjúklinga hlýtur að vera sérstakt áhyggjuefni. Já við femínístarnir látum okkur nefninlega annt um litlu strákana líka. Litlu strákanna sem vita ekkert hvert þeir eiga að horfa eftir fyrirmyndum og leita því æ oftar í afþreyjingarmenninguna sem er stórhættuleg ef henni er gert að gegna hlutverki sem henni var alls ekki ætlað
.