laugardagur, desember 23, 2006

Íslenskukennarinn

Það er boðið upp á gleðilegan desember, svo gerist ekkert svo dögum og vikum skipti. Þetta er vitaskuld ekkert annað en kæruleysi.

Það var mér ákaflega mikilvægt þegar ég var að nefna stelpurnar mínar að báðar hefðu tvínefni og að nöfnin færu vel saman. Það skipti mig líka máli, þar sem ég er með þeim ósköpum gerð að vilja gjarnan fallbeygja sérnöfn þar sem það á við, að nöfnin fallbeygist fallega saman. Þannig hafa bæði nöfnin Kolfinna og Katla veika beygingu en Iðunn og Ösp hafa sterka. Ég veit ekki hvort að margir velta svona löguðu fyrir sér þegar þeir gefa börnum sínum nöfn. Kolfinna Ösp og Iðunn Katla finnst mér alls ekki ganga upp. Nafnið hennar Iðunnar finnst mér líka sérstaklega fallegt í eignarfalli, Iðunnar Aspar. Svona er ég nú forkostuleg.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Gleðilegan desember

Þá er kominn desember. Þá er komin aðventa. Þá er sætastur kominn í feðraorlof. allt er ljómandi í veröldinni. Iðunn Ösp er búin að læra alveg nýtt trix. Að arga. Ekki til að gráta eða kvarta heldur bara til að hafa hátt. Hún er rosalega ánægð með þetta nýja trix og notar það óspart.

Nú standa yfir framkvæmdir á heimilinu. Gert fínt fyrir jólin. Heimilið skal í kjólinn fyrir jólin, gaman að því.