Þá er krakkinn búinn með fargmöldunina og ég get snúið mér aftur að þarfari hlutum. Kona ein í Vesturbæ, þ. e. Vesturbæ Kópavogs, sendi skólanum bréf til þess eins að láta okkur, starfsmenn skólans vita að hún hefði rekist á nokkra af englunum okkar á frekar hægri leið úr sundlöginni og aftur í skólann. Konukindin hafði farið öfugu meginn fram úr þann daginn og hafði allt á hornum sér, fannst dagurinn svartnætti eitt og ekkert gæti bjargað því. Fyrir utan húsið hennar lá bíldruslan hennar grafin í snjó og henni þótti hún sjálf heldur vanmáttug gagnvart þessu fargi. Komu þá aðvífandi áðurnefndir englar, brosandi út að eyrum yfir öllu þessu fannfergi og buðust til að moka konuna út úr skaflinum svo hún gæti komist út í daginn. Það er skemmst frá því að segja að téðir englar með eplakinnar og colgate-bros björguðu ekki aðeins deginum heldur allri vikunni að sögn konunnar.
Mér þótti með eindæmum skemmtilegt að konan skyldi taka sér stund til að senda okkur línu til að láta vita af þessu. Það gefa sér ekki allir tíma í slíkt en við ættum samt að gera það, alltaf.