Herbst
Þá er búið sumarfríið, allt í einu og án þess að ég tæki eftir því. Á sunnudaginn áttaði ég mig skyndilega á því að ég hafði ætlað að gera ýmislegt skynsamlegt í sumar, þrífa skápa, breyta herberginu hennar Kolfinnu og svo framvegis. Við hjónin ákváðum því, á síðasta degi sumarfrísins að mál væri að drífa í þessu og ruddum öllu út úr bæði fataskápnum og herberginu og hófumst handa. Að sjálfsögðu þýddi þetta að heimilið er búið að vera rústir einar alla vikuna og allt út um allt. Ikea stóð náttúrulega undir nafni og átti ekki til á lager nema sumt af því sem okkur vantaði svo biðin varð heldur lengri en til stóð og endurskipulagið á heimilinu lét á sér standa. Í gær fórum við svo og sóttum það sem á vantaði, á elleftu stundu því dóttirin var væntanleg heim af vestfjörðum með föður sínum. Við náðum að ganga frá flestu áður en hún kom heim (ég hefði þó mátt þurrka úr gluggakistunni), litla stýrið hélt sig vera að dreyma þegar hún kom inn í nýju svítuna því hún hafði ekki hugmynd um framkvæmdirnar þegar hún fór að heiman. Full þakklætis lofaði hún öllu fögru um tiltekt og umgengni í „nýja“ herberginu. Við sjáum nú með það.
Skólinn er að hefjast og ný og krefjandi verkefni á döfinni. Mér finnst lífið spennandi og gaman að vera til. Veturinn leggst vel í mig og persónulega held ég að ég muni blómstra í vetur. Við sjáum nú til með það.
2 Comments:
Hvar muntu kenna í vetur, kella mín?
Varðandi hitting, heldurðu að við náum að hittast á næstunni eða verður það bara gerð önnur tilraun næsta sumar???!!!
Herbergið hennar Kolfinu Kötlu er svaka flott en það er eins gott að hún haldi reglurnar sem hún sagði mér frá varðandi umgengnina !
Trúðu mér, þetta verður ótrúlega góður vetur, nú ef þú ert í vandræðum þá hringirðu bara í litla bróður! og berð þig upp við hann, gott ráð ekki satt????
Skrifa ummæli
<< Home