mánudagur, júní 30, 2003

þetta er eitthvað öðruvísi!

þriðjudagur, júní 24, 2003

Í DV í gær:

„Þær stöllur Barrymore, Diaz, og Liu þykja verðugar hetjuleikonur og segja má að Englar Charlies séu svar kvenkynsins við James Bond og öðrum karlímyndunum í njósnakvikmyndum.“

Ef maður horfir í gegnum fingur sér varðandi málfarið og stílinn á þessu litla broti úr grein blaðamanns DV getur maður, í það minnsta glaðst yfir því að James Bond og hinir njósnarakarlarnir voru bara ímyndun.

mánudagur, júní 23, 2003

Sólin skapp á loft og ég skrapp aðeins út til að heilsa upp á hana. Lítill (c.a. 12 ára) strákur var fyrir utan að leika sér í fótbolta með vinum sínum. Sæti litli strákurinn spurði mig hvort ég væri að vinna hérna eða hvort ég væri krakki sem væri að læra í skólanum. Mér fannst það fallega gert af honum og er að hugsa um að bæta nafninu hans í erfðaskrána mína.

Það er alltaf bloggfrí hjá mér um helgar. Það gæti hugsanlega bent til þess að mér þætti frekar leiðinlegt að blogga en bara ennþá leiðinlegra í vinnunni og ég notaði því tímann í vinnunni til að blogga. Hmmmm hux, hux, hux. Gæti verið einhver önnur útskýring?

föstudagur, júní 20, 2003

Gaman í minni vinnu, skóastjórinn ákvað að gefa frí eftir hádegið þar sem innandyra er of mikið ryk og of lítið loft og utandyra er of mikil sól. Ég er farin út í sólina, ekki verða mjög öfundsjúk.

Mér skilst að undirrituð og krílið hafi báðar sést í sjónvarpinu, sætar í bleiku, í gærkvöldi þar sem þær spókuðu sig um kvennasöguslóðir. Mín bara missti alveg af þessu. Vonandi verð ég uppgötvuð fljótlega.

Er að hlusta á Sniglabandið „lifandi“ á Rás 2. Rétt í þessu hringdi hlustandi, Frosti, inn og bað um Number of the Beast með Iron Maiden. Strákarnir mundu ekki alveg hvernig lagið byrjaði fyrr en einn þeirra benti, réttilega, á að það byrjar eins og When the Saints Go Marchin' in. Þetta fannst mér alveg drepfyndið.

fimmtudagur, júní 19, 2003

Til hamingju með daginn!

miðvikudagur, júní 18, 2003

Diskur sem ég þarf að eignast:
Graceland með Paul Simon.
Þar sem hann nýtur dyggrar aðstoðar Ladysmith Black Mombasa (ekki veit ég hvernig þetta er skrifað). Mig hefur langað í hann síðan ég var unglingur best ég kaupi mér hann fljótlega.
Ferðasaga á eftir.

fimmtudagur, júní 12, 2003

Enn er ég að leggja land undir fót. Í þetta skiptið ætla ég að heimsækja frumburð foreldra minna, litla demantinn á Dalvík. Hans ekta kvinna og mín uppáhalds mákona (ekki minnist ég nú þess að ég eigi sérstaklega margar) er að útskrifast frá Háskólanum á Akureyri úr, haldið ykkur fast, kennaradeildinni. Merkilegt þetta láglauna pakk sem raðar sér í kringum foreldra mína. Bróðir minn, ofursjálfstæðismaðurinn, er ekki par hrifinn.

Ég bið aðdáendur mína hahahahahahahahahahahahahahahahahahahahahah (meira að segja mamma er löngu hætt að lesa þetta) að sýna biðlund þó ekki verði bloggað í nokkra daga.

Hún litla systir mín, sem yfirleitt hefur eitthvað þarfara við tíma sinn að gera en að lesa bloggið hennar stóru systur, á afmæli í dag. Þrátt fyrir að ég geri ekki ráð fyrir að hún sjái þessa kveðju óska ég henni samt hjartanlega til hamingju með daginn. Annars neyðist ég víst til að kyssa hana þegar ég hitti hana á Dalvík í kvöld. Ég er meira að segja búin að kaupa handa henni afmælisgjöf, þvílík framtakssemi.

Til hamingju með 24ra ára Elín mín Ósk og druslastu svo til að lesa bloggið hennar systur þinnar og þakka fyrir kveðjurnar.

Það er eins og ég muni skýrt og greinilega hvar ég var þegar ég varð 24 ára.....kasótlétt og fárveik inni á spítala. Þú hefur vinningin litla systir.

miðvikudagur, júní 11, 2003

Mér finnst vegið að karlmennsku minni. Ég fæ botnlaust og endalaust sendan spam-póst þar sem mér er ýmist boðið að lengja á mér typpið á náttúrulegan og öruggan hátt eða boðin kaup á viagra. Þetta er náttúrulega ekki alveg í lagi.

þriðjudagur, júní 10, 2003

Að reyna að gera Vestfjörðum skil. Það er ekki svo gott. Með allumfaðmandi fjöllin og náttúruna, hrikalega og blíða í senn. Þar sem allt virðist vera um það bil að detta ofan á þig, jafvel í ljósadýrð sumarsins. Friðsældin, fjallaloftið og lindarvatnið (sem við drukkum beint úr lækjarsprænum í vegkantinum) nærir bæði sál og líkama betur en flest það sem ég hef innbyrt í allan vetur. Gömlu húsin á Ísafirði eru svo heimilisleg að þú stenst það vart að gægjast á glugga og velta því fyrir þér hvernig svona hús myndi klæða húsgögnin þín. Það eru forréttindi að fá að búa við slíkar aðstæður.

Verst með vegina

Útvarp skyndilega í vinnunni minni af því að ég er orðin ein eftir. Hljómsveitin Spútnik OJ, hvað er eiginlega að í höfðinu á sumu fólki.

Fagurt var það á Vestfjörðum.

föstudagur, júní 06, 2003

Af gefnu tilefni er rétt að taka það fram að ég geri mér fulla grein fyrir að Ísafjörður muni ekki vera í Dýrafirði en Skutulsfjörður og Dýrafjörður eru hins vegar báðir á Vestfjörðum svo það verður að duga.

Mér skilst að öll vötn falli nú til Dýrafjarðar. Af því tilefni er ég að hugsa um að skella mér á Ísafjörð um helgina, þangað hef ég ekki komið lengi.

mánudagur, júní 02, 2003

Hér kom inn kona sem angaði af hrikalega vondu ilmvatni, blanda af formalíni og kölnarvatni, og miklu af því. Illa gert.

Mínir menn stóðu sig með stakri prýði í akstrinum um helgina enda tímabært að hrista af sér slyðruorðið.

Hitti vin í dag sem ég hef ekki séð lengi. Það var skemmtilegt. Hann á eftir að vera á námskeiðum hér innan húss alla vikuna, það verður skemmtilegt.