sunnudagur, nóvember 25, 2007

Jólaskap

Það er svo skrýtið að sætastur er langfyrstur á okkar heimili til að komast í jólaskap. Yfirleitt er hann á hjólunum á eftir okkur Kolfinnu til að róa okkur niður í jólalögunum og seríunum en nú er minn bara farinn að söngla jólalöginn og orðinn ægilega spenntur.

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Svo er líka skrýtið...

...hvað ég er orðin gömul. Vinsælasta hljómsveitin á Íslandi þessa dagana er án efa Sprengjuhöllin. Þegar ég var yngri, miklu yngri, skipti ég um bleyjur á einum meðlima Sprengjuhallarinnar.

ÚFF!

Svona er svo skrýtið

Mamma mín eignaðist fjögur börn á tveimur ólíkum áratugum. Þrjú á áttunda áratugnum og og eitt á þeim níunda. Ég á bara tvö börn en þau eru fædd á tveimur ólíkum öldum.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Namm

Það eru komnar mandarínur inn á heimilið.

JóÓlin JóÓlin aAstaðar.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Nýr drengur

Steingleymdi áðan því að Kristínu og Gumma fæddist í morgun lítill drengur. Fjórtán merkur, heilbrigður og eflaust fjallmyndalegur eins og foreldrarnir.

Til hamingju með þetta elskurnar!

Dálítið fyndið að mér finnst Iðunn enn nýfædd en nú þegar eru í vinahópnum mínum fæddir tveir drengir sem eru yngri og þrjú börn til viðbótar eru á leiðinni.

Nýjasta æðið

ég er algjörlega dottin í fésbókina. Er búin að hafa upp á gömlum vinum út um allar trissur, ferlega skemmtilegt.

Pínkubarnið er búið að vera heima síðustu daga með kvef og augnsýkingu. Fórum með hana til læknis áðan og fengum dropa í augun. Þarf vitaskuld ekki að taka það fram að pínkubarninu þykir ekki góð hugmynd að láta klína einhverju í augun á sér og argar þess vegna hástöfum þegar það er reynt. Hún hefur annars ekkert verið að slaka á vegna veikindanna heldur er hún fullu uppi í gluggakistum, undir sófa og inni í hillu. Ég held að það séu engin takmörk fyrir því sem henni dettur í hug.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Innlit útlit

Það væri alveg horfandi á Innlit útlit ef ekki væri fyrir Arnar Gauta...

Lappan mín

Hér sit ég í stofunni minni með nýjasta fjölskyldumeðliminn, nýjasta gæludýrið, í fanginu. Sætastur fékk notaða fartölvu fyrir lítinn pening í vinnunni sinni og færði mér hana í einhvers konar fyrirfram jólagjöf. Ég efast ekki um að hún á eftir að nýtast vel. Mig hefur lengi dreymt um að eignast slíkan grip og hef ýmsar hugmyndir um að nota hana mikið. Ég endist eitthvað svo illa fyrir framan borðtölvuna en held ég geti vel vanist þessari.

Ég held að Lúkas Þorlákur eigi afmæli í dag, óska honum og hans til hamingju með það!

mánudagur, nóvember 05, 2007

Biflían

Ég hef haft það fyrir sið í nokkur ár að skipta lokhljóðum út fyrir önghljóð í ákveðnum orðum. Þannig segi ég gjarnan Pefsí en ekki Pepsí og oftar er ekki Biflía í stað Biblía. Rak mig svo ekki í rogastans áðan, þar sem ég sat og fletti Orðabókinni, eins og ég geri oft og hnaut um orðið Biflía.

Biflía, -u KV (oftar ritað Biblía, einnig biblía) heilög ritning kristinna manna, Gamla og Nýja testamennti; Biflíuljóð ljóð ort um efni úr Biflíunni; Biflíumyndir; Biflíusögur úrvalskaflar (endursagnir) úr Biflíunni.

Ég hef hins vegar ekki fundið Pefsí í bókinni góðu (þ.e. Orðabókinni ekki Biflíunni (þó ég efist nú um að það finnist þar heldur)).

Syngjandi

Ég vildi bara benda ykkur sem ekki vitið á, að það jafnast á við geðlyf að syngja í kór. Ég er búin að vera á leiðinni að finna mér kór til að syngja í síðustu fjögur árin og nú lét ég loks verða af því. Hélt nú að ég myndi aldrei hafa gaman að því að syngja í kvennakór en lét undan hópþrýstingi og skellti mér í Kvennakór Hafnarfjarðar. Mér finnst það bara alveg dáindis skemmtilegt. Ég, sem yfirleitt dreg ýsur fyrir framan varpið eftir klukkan níu á kvöldin, er ekki einu sinni byrjuð að geyspa þó æfingin sé til hálf ellefu.

Við erum að æfa jólalögin þessa dagan, sem spillir nú ekki gleðinni yfir þessu öllu saman. Og í verðum með voða fína jólatónleika í desember (desember hentar einmitt mjög vel fyrir allt sem er jóla... eitthvað). Ég læt nú vita nánar um það síðar. Aldrei að vita nema einhverjir af hundtryggum lesendum mínum láti nú bara sjá sig.

Er annars farin að efast um að nokkur maður lesi þetta lengur. Ég er alveg hætt að fá komment.