Til þess að ég fylli nú örugglega upp í þann kvóta af vinnustundum sem mér er úthlutaður er mér uppálagt, í vinnunni minni, að sinna alls konar verkefnum fyrir utan kennsluna. Þetta kallast á fagmáli 9,15 og enginn skilur þetta nema fuglinn fljúgandi og þeir sem hafa lítið annað við tíma sinn að gera en að grúska í og stúdera kjarasamninga. Eitt af því sem kemur í minn hlut er að sitja í forvarnaráði Kársnesskóla. Þetta þykir nátturulega ofur eðlilegt og enginn hérna þekkir mig nógu vel til að þykja þetta fyndið. Ég tek líka stöðu mína alvarlega og hef áhuga á að sinna henni vel. Með mér í nefndinni er líka alveg bráðskemmtilegt fólk sem spillir nú ekki fyrir.
Á öðrum fundi forvarnaráðsins sem haldin var í gær verið að kasta á milli alls konar hugmyndum um þær forvarnir sem við þyrftum að sinna. Eiturlif, áfengi og tóbak er allt inni í föstum fyrirlestrum og námskeiðum svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Pjetur enskukennari kom með þá snilldarhugmynd að við reyndum að stuðla að forvörnum gegn Framsókn. Það dylst engum að Framsóknarflokkurinn veður uppi og er stóhættulegur hvar sem hann kemur, ekki síst í Kópavogi.... Mér fannst þetta öndvegis hugmynd því ég held að bæði börnunum og bæjarfélaginu yrði gerður greiði með slíkri ráðstöfun.
Þegar við síðan ákváðum að taka okkur sjálf alvarlega í smá stund þá komumst við að því að þeir fyrilestrar sem okkur stóðu til boða og við gátum kallað forvarnir voru fjölmargir og hver öðrum skynsamlegri. Við gátum fengið Geðhjálp, Samtökin 78, Spegilinn, Regnbogabörn og margt fleira. Það sem varð samt ofan á hjá okkur, í það minnsta í bili er kvöldnámskeið fyrir foreldra og unglinga þar sem tekið er á kynhegðun unglinga. Ef það er ekki draumur hvers unglings að setjast niður með foreldrum sínum eina kvöldstund og ræða kynhegðun sína þá veit ég bara ekki hvað :Þ Nei, nei, fyrirlesturinn er bráðskynsamlegur og miðar að því að hjálpa foreldrum að ræða þessi mál við börn sín á sem bestan hátt. Ástæðan fyrir því að mér finnst fyrirlesturinn svo sniðugur, burt séð frá því að þetta málefni er auðvitað vanrækt, er sú stefna að varpa bæði ábyrgðinni og framkvæmdinni yfir á foreldrana. Kennarar hafa sjaldnast skorast undan þegar hinum og þessum uppeldislegum skyldum er hent yfir á þá en það vill nú svo til að mér finnst það að miklu leyti á ábyrgð foreldranna að ala þessar elskur upp.
Þetta er auðvitað bara mín skoðun og fólk hefur alveg leyfi til að vera ósammála henni en mér er alltaf minnistæð móðirin sem hringdi í móður mína, kennarann, um árið og sagði við hana: „Dóttir mín er byrjuð að reykja, hvað ætlar þú að gera í því?“
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home