Í yfirstandandi viku hefur verið í gangi skemmtileg framhaldssaga á forsíðu Fréttablaðsins. Norðurljós hefur verið að segja upp starfsmönnum „like there's no tomorrow“, í fyrradag var Árni Snævarr á forsíðunni í gær var það Snorri Már en í dag tók þó steininn úr. Að mínu viti hafa það verið hæfustu og ferskustu dagskrárgerðarmenn Stöðvar tvö sem hafa fengið reisupassann (ég held að Jón Ársæll ætti að vera var um sig) og þegar hefur verið upplýst að Þorsteinn Joð sé fokinn. Nýjasta snilldarbragð stöðvarinnar er svo að bjóða Jónasi R. að fylla sæti Þorsteins í þáttunum „viltu vinna milljón?“, það ætti að reynast honum létt verk og löðurmannlegt, eða hvað.
Fyrir rúmlega tíu árum (segi og skrifa tíu árum, maður er víst orðinn þetta gamall) bjó ég ásamt Sigurlaugu vinkonu minni í ákaflega notalegri kjallaraíbúð í Hvammsgerðinu. Við stöllurnar höfðum það fyrir sið að stilla vekjaraklukku á níu á laugardagsmorgnum (við vorum jafnvel árrisulli en á virkum dögum), hella á kaffi, skreiðast fram í stofu með sængurnar okkar og dorma yfir bestu dagskrárgerð sem ég hef heyrt í útvarpi fyrr og síðar „Þetta líf, þetta líf“ með téðum Þorsteini Joð. Ég hef ekki nú og hef ekki haft lengi áskrift að Stöð tvö en það sem ég hef séð til Þorsteins á þeim vetthvangi hefur alltaf borið keim þeirrar snilldar. Nú hafa Norðurljós sum sé ákveðið að ráða gullmakkann Jónas R. í hans stað. Ég bara spyr, er allt í lagi hjá ykkur strákar mínir....
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home