mánudagur, nóvember 17, 2003

Er ekki alveg nóg að blogga einu sinni í viku? Letiblogg, letiblogg. Hanna og Þurý, systur hans Kjartans, buðu mér með sér í Borgarleikhúsið í gærkvöldi. Alveg bráðskemmtileg kvöldstund. Skemmtileg tónlist, flottir dansar og mikil akróbatík. Ég er nýbúin að komast að því að mér þykir svona listdans skemmtilegur, ég hélt nefninlega að mér þætti hann hundleiðinlegur.

Á föstudaginn fagnaði ég með tveimur afmælisbörnum. Fyrst með Þurý sem varð tvítug og bauð upp á vöflur og fleira og síðan með Jóni Geir sem varð ekki tvítugur og bauð ekki upp á vöflur en smá trivial.... Ragnheiður litla „overdosaði“ á sykri og lét öllum illum látum. Ég hef bara aldrei séð annað eins. Þessi rólyndis manneskja.

Á laugardaginn þreif ég baðherbergisskápana (ef svo undarlega vildi til að einhver hefði áhuga á því). Um kvöldið fór ég svo í matarboð til mömmu hans Kjartans í nýju íbúðina í Mosó og síðan í bíó með Elfu og Gunna. Mér er alveg sama hvað aðrir segja og hvað öðrum finnst um Matrix Revolutions mér fannst hún stórkostleg. Miklum mun svartari en hinar myndirnar og allt öðruvísi. Baráttan leidd til lykta á trúverðugan máta, held ég.

Af gefnu tilefni er rétt að taka fram að Kjartan var með mér í flestu því sem ég tók mér fyrir hendur um helgina. Nema hvað honum var ekki boðið með í Borgarleikhúsið og hann komst ekki fyrir inni í baðherbergisskápunum svo hann vaskaði bara upp á meðan. Ég er hins vegar óvön því að tala um sjálfa mig sem við.... og er því að hugsa um að halda áfram að tala um sjálfa mig sem mig enda hef ég engu glatað eða týnt af mínu sjálfi. Hann færi hins vegar yfirleitt að fljóta með og þá verð ég bara að minnast á það.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home