þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Greind eða ekki

Nú er orðið nokkuð síðan ég hef birt hér nokkuð og hef ég engar afsakanir með það. Ég er búin að fara í leikhús síðan ég tjáði mig síðast, að sjá jólaævintýri Dickens og var það skemmtun hin ágætasta. Ég er líka búin að fara tvisvar í bíó sem telst nokkuð gott því sennilega næ ég yfirleitt fjórum bíóferðum að meðaltali yfir árið. Ég sá Serenity sem er snilld (en óþarflega illa textuð, það fór t.d. óendanlega í taugarnar á mér að doc var alltaf þýtt Saxi, hrikalega hallærislegt) og nýjasta Potterinn sá litla fjölskyldan líka og skemmtu allir sér vel þó krílið þyrfti á stundum að fela sig í handarkrika móður sinnar.

Mest er þó um vert að síðan ég skrifaði síðast er ég búin að fara í litgreiningu og er nú greind sem aldrei fyrr. Þetta er nú nokkuð sem ég hefði aldrei farið í nema til að gera einhverjum greiða og ekki haft nokkurn áhuga á og sú stefna mín og skoðun er enn óbreytt. Niðurstaðan var sú að ég væri Skær, Björt og Heit (gott ef ég var ekki hýr líka) og á að vera alltaf í bleiku (nokkuð sem ég vissi fyrir) og nota mikið af öllu sem skín og glitrar. Skartgripir og glimmer Kjartani til endalausrar gleði.

Að lokinni téðri litgreiningu fór ég að velta fyrir mér hversu greind ég raunverulega sé. Hér er ég að sjálfsögðu að tala um greind sem vex og dafnar í hausnum á mér en ekki í leppunum utan á mér. Ég er þeirrar skoðunnar að þegar ég var barn hafi ég verið afburðargreindur krakki. Ég var orðin læs löngu áður en ég útskrifaðist úr leikskóla, ég leysti tiltölulega flókin stærðfræðidæmi og ég tók tungumál inn um nefið um leið og ég kynntist þeim. Í dag, rúmlega þrítug, held ég að ég sé talsvert minna greind en ég var þegar ég var enn með barnatennur. Og það er sennilega sjálfri mér að kenna.

Greindarvísitala er ekki óbreytanleg tala sem þú fæðist með og heldur svo alla ævi. Greindarvísitala getur breyst talsvert og hefur þar mest áhrif hversu mikla örvun og þjálvun heilinn fær dag frá degi. Fyrstu greindarmælingarnar voru gerðar þannig að búin voru til próf sem voru talin henta hverju aldursstigi fyrir sig, prófin voru lögð fyrir og ef þeim sem mæla átti gekk mjög vel með próf sem ætlað var hans aldursstigi en gat ekki prófið sem var fyrir þá sem voru ári eldri var greind hans 100. Ef hann gat prófið fyrir þá sem voru ári eldri en ekki þá sem voru tveimur árum eldri var greindin 110 og þannig koll af kolli, bæði upp og niður. Greindarpróf eru allt öðruvísi útbúin í dag en viðmiðin og mælieiningarnar eru þær sömu.

Nú víkur aftur að þeirri yfirlýsingu minni að ég sé ekki lengur jafn greind og ég var þegar ég var barn. Þegar ég var barn var ég afburðar ég var greindari en lang flestir jafnaldrar mínir. Í dag held ég að ég sé svo sem yfir meðallagi en sennilega alls ekki afburðar. Ég held að ég hafi alls ekki verið nógu dugleg að halda gráu sellunum við efnið og þess vegna ver vísitalan lækkandi. Ég komst í gegnum bæði menntaskóla og háskóla án þess að leggja neitt rosalega á mig og auðvitað án þess að gera það með neitt sérstaklega miklum glans (hefði án efa getað gert betur og hefði líka haft gott af því). Þegar ég var ungi las ég á við heilt hesthús en í dag hafa bækurnar allt of oft vikið fyrir sjónvarpi og það er heldur ekki gott.

Nú er ljóst að það skiptir viðlíka máli að halda heilanum í formi og bumbunni svo nú ætla ég að sum sé að slökkva á sjónvarpinu og þjálfa bæði bumbu og heila. Ég held að ekki veiti af.

Skrýtið!

4 Comments:

At 30 nóvember, 2005 15:44, Anonymous Nafnlaus said...

Stórskrýtið!

 
At 30 nóvember, 2005 17:38, Blogger fangor said...

þetta er alveg hárrétt hjá þér. í ofánlag eru svo óléttur og barneignir forheimskandi líka, veit ekki hvar þetta endar allt saman *andvarp* ég sé fram á svarta framtíð. kannski verð ég farin að tala um sjálfa mig í fleirtölu eða þriðju persónu og orðin viðræðuhæf um íslenska bachelorinn áður en ég veit af.

 
At 01 desember, 2005 09:56, Blogger frizbee said...

Ég finn fyrir thessu sama. Ég á ekki eins audvelt med ad laera og ég átti thegar ég var krakki, en ég les hins vegar miklu meira... s.s. ég les meira en hálfa bók á ári.

Hmmm... aetli madur geti reddad sér greindarvísitoluprófi hérna úti?

 
At 01 desember, 2005 10:14, Blogger Rannveig said...

veraldarvefurinn frizbee, veraldarvefurinn...

 

Skrifa ummæli

<< Home