þriðjudagur, nóvember 19, 2002

Nú deila menn hart um hvort blogg sé eða sé ekki bókmenntir. Kurrinn fór af stað vegna væntanlegrar bókar Betu rokk, Vaknað í Brussel. Fæstir þeirra sem eru að tjá sig um málið hafa lesið bókina. Aðeins kafla úr henni á netinu og vinsæla bloggsíðu beturokk. Þeir sem hafa horn í síðu Betu vilja meina að hún sé hæfileikasnauður penni sem glögglega megi sjá blogginu hennar. Ég er búin að kíkja á þessa kafla úr bókinni sem hægt er að lesa á netinu og gerði mér auk þess ferð inn á bloggið hennar áðan. Ef það væri nóg til að kveða upp úrskurð um ágæti væntanlegrar bókar myndi ég fullyrða að hún væri ekki pappírsins virði ég ætla mér samt að gefa Betu litlu séns og bíða með að skjóta hana niður þar til bókin er komin út.

Það sem ég ætla hins vegar að velta mér upp úr er spurningin um bókmenntalegt gildi bloggs. Blogg er vissulega ný textategund en ég veigra mér við að kalla það bókmenntategund. Í jólavertíðinni í fyrra kom út bók eftir Þórunni Valdimarsdóttur, Hvíti Skugginn. Í henni var gerð tilraun með að blanda saman einhverskonar bloggi og skáldsögu. Til að gera söguna trúverðuga var hægt að lesa brot úr bloggi (sem hét að vísu alls ekki blogg í bókinni) þriggja aðalpersónanna á netinu. Þessi tilraun var hins vegar algjörlega misheppnuð. Bókin var hundleiðinleg og netútgáfan bætti engu við.

Bloggið býður án efa upp á afar skemmtilega möguleika sem ný textagrein. Enn sem komið er leyfi ég mér að fullyrða að það sé hins vegar ekki bókmenntagrein. Kristján B Júlíusson hefur haft á orði í viðtölum að bloggið sé ágætis leið fyrir hvern og einn að æfa sig við ritmennsku og þróa stílinn. Þetta er hárrétt hjá Kristjáni, en er örugglega góð hugmynd að vera að gefa stílæfingarnar út á prennti. Eigum við ekki í bili að leyfa Bloggi að vera blogg. Þá er það lesið sem blogg og það er alveg nóg. Bókmenntir hins vegar eru bókmennti og þar til bilið verður brúað af frjórra og hæfileikaríkara fólki en þegar hefur verið gert, verða þær að fá að vera í friði

Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home