mánudagur, maí 30, 2005

Takið gleði ykkar á ný.

Já kæru lesendur þið getið tekið gleði ykkar á ný. Gleymið öllu ergelsi yfir slöku gengi í Kiev, gleymið sorgum ykkar yfir því að hafa ekki náð í miða á Iron Maiden og gleymið öllum hugrenningum um að gaman væri nú að skella sér á Foo Fighters eða Duran Duran. Fyrir alla muni látið ykkur ekki detta í hug að þið hafið mist af neinu skemmtilegu af því þið tímduð ekki að borga ykkur inn á listahátíð.

Og hvað er það, gætuð þið spurt, sem á að lyfta hjörtum vorum upp úr grámyglulegum hversdagsleikanum? Jú, einn snjallasti tónlistamaður vorra tíma er á leið til Íslands. Stuðboltinn hrokkinnhærði, gleðigjafinn með englaröddina Michael „how's my hair“ Bolton er loksins að koma. Og eins og stórvinur minn Bubbi Morteins sagði einu sinni: „Góðir Íslendingar þið getið byrjað að naga húsgögnin ykkar“ slík er stemningin yfir þessari heimsókn.

Í tilefni þessa stórviðburðar var viðtal við eftilætis fjölmiðlaprinsessuna okkar allra, Valdísi Gunnarsdóttur Michael Bolton aðdáanda númer eitt, í fréttablaðinu fyrir helgina. Hún hefur að sjálfsögðu eins og sönnum aðdáanda sæmir þegar séð goðið á tónleikum fyrir nokkrum árum í Kaupmannahöfn. Verst þykir mér að við Íslendingar fáum ekki notið þeirrar snilldar sem Valdís naut það kvöld því hún fékk tvo fyrir einn tilboð.... Michael Bolton og Kenny G á sömu tónleikum.

Geri aðrir betur.

þriðjudagur, maí 24, 2005

að júróvisjóni afloknu

Þá er júróvisjóni lokið og skemmti ég mér hið besta þrátt fyrir að gengi íslendinga hafi verið með slakasta móti. Vorum við ekki fyrir löngu búin að vinna þetta 16. sæti til eignar. Lá yfir ósköpunum með kvef, hita og austurlenskt „take away“ og bísnaðist yfir sum en skemmti mér yfir öðru.

Mér finnst einhvern veginn eins og veturinn eigi að vera farinn. Mér finnst eins og það sé allt of kalt úti. Vorboðarnir eru allir komnir; lóan, róninn á austurvöll, próftöflurnar og nú síðast júróvisjón en allt kemur fyrir ekki. Hitinn úti er langt fyrir neðan það sem eðlilegt og ásættanlegt getur talist. Útsýnin úr glugganum á morgnana lofar svo sem nógu góðu en efndirnar eru ekki mklar. Skíta-drullu-veður og ég er búin að fá nóg af því. Ég ætlaði að fá fallegan lit og freknur fyrir brúðkaupið. Ég efast stórlega um að litið verði á það sem „a bold fashion statement“ (þýði þeir sem þýða vilja) að brúðurin verði með ámálaðar freknur.

Fann þessa sætu konu ég kannast við hana svo ég bætti henni við vinina hér til hliðar.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Gleðilegan júróvisjóndag

Fjölskyldan mín vaknaði með fiðring í mallanum í morgun. Upp er runninn júróvisjóndagur hinn fyrri. Við ætlum svo sannarlega (í það minnsta mæðgurnar) að fagna okkar undarlegu perversjón, að hafa gaman að júróvisjón, og skemmta okkur vel. Kannski bara að poppa og kaupa kók og stykki, hver veit.

þriðjudagur, maí 17, 2005

Djammí spammí

Til stóð að nota nýafstaðna hvítasunnu helgi í afslöppun og huggulegheit með fjölskyldunni. Skreppa í sund með fangor og gjugga kannski í barninu í Grafarvoginum. Ýmislegt fer nú samt öðruvísi en ætlað er og hvítasunnan var haldin heilög með tveggja daga djammi sem ég hef nú ekki hætt mér út í síðan ég var unglingur.

Systir mín góð stóð fyrir „gæsun“ á laugardeginum. Hún hafði safnað saman gömlu þollurunum og frænkunum og mákonunni og varð það hinn ágætasti söfnuður. Skemmti mér k0nunglega. Á laugadeginum bauð afmælisbarnið móðir mín fjölskyldunni í mat og varð úr því náttúrulega djamm fram á morgun með tilheyrandi áti og drykkju.

Einhverntíma var sagt maður getur bara hvílt sig þegar maður er dauður....

föstudagur, maí 13, 2005

Þetta er bara snilld

Ég má bara til að ræna þessari snilldar krækju af Hrönn. Þetta er auðvitað ekki spurning um hvort heldur hversu marga.

Uppáhalds

Auðvitað er maður uppáhalds karakterinn í uppáhaldssjónvarpsþættinum sínum


Wash
You are Wash. Not only are you a great pilot, you
are also the joker of the group. Your devotion
to your wife is admirable, though you sometimes
feel insecure. Thank god you shaved off your
moustache.

Which Firefly character are you?
brought to you by

miðvikudagur, maí 11, 2005


Þarna er hann í fanginu á Rannveigu frænku (sem er auðvitað ekkert skyld honum). Það er skemmst frá því að segja að hún vildi helst taka hann með sér heim. Posted by Hello


Eins og lofað var. Mynd af vikugömlum Gunnarssyni. Glöggir lesendur ættu að taka eftir að hann líkist öðru foreldri sínu talsvert mikið........ og það er ekki mamma hans. Posted by Hello

Til upplýsingar

Lokið er samræmdu prófi í íslensku. Sjálfri var mér allri lokið eftir það. Dálítið eins og sprungin blaðra. Ég hafði beðið þessa með í það minnsta eina önd ef ekki fleiri í hálsinum í talsverðan tíma og vissi ekki vel hvað ég átti af mér að gera þegar þetta var búið. Nú verða taugarnar rólegar alveg þar til líða fer að niðurstöðunum þá mun taugaveiklun að öllum líkindum gera vart við sig að nýju.

Um efni og innihald prófsins ætla ég ekki að tjá mig mikið hér. Í heildina fannst mér prófið nokkuð sanngjarnt þó mér, bókmenntafæðingnum, hafi ein spurningin í bókmenntahlutanum komið þó nokkuð spánskt fyrir sjónir. Er satt að segja ekki búin að átta mig alveg á henni ennþá. Ég er nokkuð sammála gagnrýnisröddum um að ritgerðar efnið hafi verið talsvert snúið en um leið finnst mér það sorglegur vitnisburður um unglingana okkar að þeir séu svo illa upplýstir og lítið meðvitaðir um það sem er að gerast í kringum þá að þeir komi af fjöllum þegar rætt er um styttingu stúdentsprófsins. Það er jú ekki eins og þetta komi þeim ekki við.

Var ég ekki búin að lofa að tjá mig ekki um þetta?

laugardagur, maí 07, 2005

þreeeeeeeytt

Ég var búin að lýsa því yfir við sætastan í gær að sennilega myndi ég andast þegar vinnudegi lyki í dag. Ég er sumsé búin að vera að kenna síðan klukkan átta í morgun og er andlega undin tuska. Ég settist fyrir framan tölvuna mína í vinnunni í veikri von um að hafa orku til að semja eitt próf fyrir mánudaginn en það frestast án efa til morguns þar sem ég er ekki fær um vitsmunalega tilburði að nokkru tagi heldur stari út í loftið af mikilli áfergju og einverra hluta vegna segir heilinn í mér baaaaaaaaahhh.

Sætastur er á leiðinni að sækja mig. Vinnunni hans er rétt að ljúka svo hann hlýtur að vera alveg að koma. Einu sinni var ég að vinna við þýðingar hjá ónafngreindu tryggingafélagi hér í borg og þá fór heilinn minn stundum út af sporinu, eins og núna. Þá var ég vön að kíkja hingað. Ætli þessi síða sé enn skemmtileg.

Venlig hilsen, Helga.

föstudagur, maí 06, 2005

Föstudagur til spleuuöö

Hafði tíma að drepa í vinnunni minni rétt á meðan þarfasti þjónninn, ljósritunarvélin, étur upp eitt huggulegt rjóður úr regnskógi. Notaði auðvitað tíman og bætti Hrönnsu pönnsu í Íþöku við á linkalistann minn, long overdue, og lagaði örlítið Ástþór hinn hörundsára. Nú finnst mér þetta bara nokkuð fínt en ef fólk hefur einhverjar athugasemdir er því frjálst að halda þeim fyrir sig....... Nú eða benda mér á og ég tek kannski tillit til þeirra.

Viðbrögð við síðasta pósti og „Dauðanum í líki bæjarstjóra“ hafa vægast sagt valdið vonbrigðum og benda eindregið til að fólki hafi alls ekki þótt þessi setning jafn stórundarleg og drepfyndin og mér þótti hún. Nema náttúrulega að ég hafi með bloggleti á mjög háu stigi fyrirgert rétti mínum til að líta svo á að hingað á síðuna komi nokkurn tíma einhver og lesi það sem ég hef fram að færa. Og ég sem er búin að vera svo dugleg upp á síðkastið.

Helgin sem er framundan fer mjög sennilega í að rækta mitt innra magasár (innra til aðgreiningar frá því ytra, það er ekki hægt að ímynda sér hversu ég er akkúrat núna að veltast úr hlátri yfir þessum brandara) í stressi yfir yfirvofandi samræmdu prófi. Helvítis prófið hefur þvílík áhrif á allt skólastarf að ég lít svo á að geta mín, starfsvitund og framistaða standi og falli með niðurstöðum þessa eina prófs. Þvílík firra.

Kannski ég reyni lík að kíkja í bíó og sjá Arthur, Marvin og félaga og að sjálfsögðu verður farið í formúluboð sem að þessu sinni verður í Grafarvogi. Næstu formúluboð verða sennilega þar líka í tilefni af afkvæminu sem ekki fer mikið að vísitera svona til að byrja með.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Draumfarir undarlegar

Vaknaði í morgun með orðin „Dauðinn í líki bæjarstjóra“ á vörunum. Ég get ekki með nokkru móti munað í hvaða samhengi þessi orð urðu til en merkileg eru þau. Fyrst datt mér auðvitað Gunnar Birgisson í hug en mundi þá að hann er ekki bæjarstjóri heldur Hansína, systir hans Tolla Björgvins og hún er ekki svo slæm. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvort þetta væri Ásdís Halla af því hún flutti sig til Byko eða barbiedúkkan í Reykjanesbæ en ég er engu nær. Allar tillögur að útskýringu á þessum leyndardómi er vel þegnar og ég minni á að þeim mun langsóttari þeim mun betri.

Uppáhalds bæjarstjórinn minn er auðvitað enn þá Bastían (sem var nú reyndar bæjarfógeti eða byfogede á frummálinu).

Húrra fyrir pylsugerðarmanninum!!!!!

þriðjudagur, maí 03, 2005

Fallegur er hann

Fór í gær og kíkti á prinsinn nýfædda. Fallegra barn hef ég ekki séð lengi. Ég held að það hljóti að hafa verið einhver misskilningur að hann hafi átt eftir tæpar þrjár vikur í bumbunni. Hann var svo fínn og tilbúinn greindarlegur á svip og með fallegann hárlubba. Ég held að bjölluhljómurinn í eggjastokkunum mínum hafi heyrts alla leið upp í Breiðholt.

Ég gæfi mikið fyrir að vera komin með símblogg (eins og md bauðst til að gera fyrir mig hérna um árið) því ég er með glæsilega mynd af honum í símanum mínum. Ég verð hins vegar að bíða þar til ég fæ venjulega mynd með að skella honum hér inn á síðuna.

Samræmdu nálgast, íslenskan fyrst núna á mánudaginn. Nætursvefninn minnkar aðeins eftir því sem nær dregur og magasárið hefur heldur verra af. Þeir sem vilja vera vinir mínir ættu að vera í startholunum eftir 9. mai því þá fer að hægjast um hjá mér.

10 dögum seinna er svo júróvisíjón. Ég auglýsi hér með eftir júróvisíjónpartýi, nema ég haldi sjálf, hver veit. Júró og karó, hlómar það ekki grjótmyljandi vel?

sunnudagur, maí 01, 2005

Gleðilegan kommúnistadag

Það bar helst til tíðinda í dag að loksins kom í heiminn barnið sem beðið hefur verið með óþreyju jafnt á Þórsöfn, Ísafirði, Reykjavík og í Kópavogi. Drengurinn sem er búinn að láta bíða eftir sér síðan á föstudag fæddist klukkan u.þ.b. hálf þrjú í dag og heilsast móður og barni vel þrátt fyrir að vera talsvert úrvinda. Drengurinn var stór og stæðilegur þrátt fyrir að vera talsvert á undan áætlun enda móðir hans ekki þekkt fyrir neina háfvelgju.

Er búin að vera að dúlla við síðuna mína, með aðstoð sætaststststs, og finnst hún bara dáldið fín núna. Er nú dálítið efins með þessa mynd þar sem ég er bæði með frunsu og poka undir augunum en áðurnefndur sætastur var þeirrar skoðunar að þetta væri dásamleg mynd af hans heittelskuðu. Sýnir náttúrulega fyrst og fremst hversu veruleikafirrtur hann er. Hann er líka ósköp stoltur af nýju fínu síðunni sinni enda hann ósköpin öll krúttlegur á sinni mynd.

Í tilefni dagsins sem er nú að kveldi kominn vil ég biðja öreiga allra landa um að sameinast um að koma sér í háttin og býð góða nótt að vanda.

Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.