föstudagur, ágúst 29, 2003

Ég er á leiðinni í leikhús í kvöld með Kjartani, sæta stráknum sem bælir sængina mína þessa dagana. Kvetch sem hirti ef ég man rétt megnið af Edduverðlaununum, ætti að vera skemmtilegt. Meira síðar.

Í yfirstandandi viku hefur verið í gangi skemmtileg framhaldssaga á forsíðu Fréttablaðsins. Norðurljós hefur verið að segja upp starfsmönnum „like there's no tomorrow“, í fyrradag var Árni Snævarr á forsíðunni í gær var það Snorri Már en í dag tók þó steininn úr. Að mínu viti hafa það verið hæfustu og ferskustu dagskrárgerðarmenn Stöðvar tvö sem hafa fengið reisupassann (ég held að Jón Ársæll ætti að vera var um sig) og þegar hefur verið upplýst að Þorsteinn Joð sé fokinn. Nýjasta snilldarbragð stöðvarinnar er svo að bjóða Jónasi R. að fylla sæti Þorsteins í þáttunum „viltu vinna milljón?“, það ætti að reynast honum létt verk og löðurmannlegt, eða hvað.

Fyrir rúmlega tíu árum (segi og skrifa tíu árum, maður er víst orðinn þetta gamall) bjó ég ásamt Sigurlaugu vinkonu minni í ákaflega notalegri kjallaraíbúð í Hvammsgerðinu. Við stöllurnar höfðum það fyrir sið að stilla vekjaraklukku á níu á laugardagsmorgnum (við vorum jafnvel árrisulli en á virkum dögum), hella á kaffi, skreiðast fram í stofu með sængurnar okkar og dorma yfir bestu dagskrárgerð sem ég hef heyrt í útvarpi fyrr og síðar „Þetta líf, þetta líf“ með téðum Þorsteini Joð. Ég hef ekki nú og hef ekki haft lengi áskrift að Stöð tvö en það sem ég hef séð til Þorsteins á þeim vetthvangi hefur alltaf borið keim þeirrar snilldar. Nú hafa Norðurljós sum sé ákveðið að ráða gullmakkann Jónas R. í hans stað. Ég bara spyr, er allt í lagi hjá ykkur strákar mínir....

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Ég fann Ásdísi Geirsdóttur úr Hjallaskóla í Kópavogi aftan á léttmjólkurfernunni minni í morgun.

Lífið

Ég veit ekki hvers vegna
og ég veit ekki hvernig það er
og ég skil ekki hvers vegna
og til hvers það er.

En seinna mun ég skilja
til hvers og af hverju það er
og líka mun ég vita
hvernig það er.

Vá, haldið þið sem eruð komin til vits og ára að vesalings stúlkan eigi eftir að verða fyrir vonbrigðum?

miðvikudagur, ágúst 27, 2003

Nú er krílið komið í skólann og ég sit heima með öndina í hálsinum. Hún var pínulítið smeik við þetta allt saman en þegar á hólminn var komið var mamman bara skít hrædd. Hún er bara lítið fiðrildi og Melaskóli er svo stór. Hún er líka vön að vera innan lokaðrar girðingar (sem hefur vissulega ekki alltaf stoppað hana) með augu leikskólakennaranna á sér öllum stundum. Lóðin við grunnskólann er ekki lokuð og henni gæti alveg dottið í hug að flögra í burtu. Svo gæti einhver verið vondur við hana og þá er enginn nálægt til að knúsa hana sem hún þekkir. Ég veit að þetta verður auðveldara eftir nokkrar vikur þegar hún er farin að þekkja kennarana og gangaverðina en í augnablikinu er ég dálítið taugaveikluð....

fimmtudagur, ágúst 21, 2003

Newsflash: I'm having Chris Cornell's lovechild........someday.

Hann gerir hluti fyrir mig þessi maður, úff.

Maður skyldi aldrei ætla að maður væri að gera börnunum sínum greiða með því að eyða of miklum tíma með þeim. Nú erum við mæðgur búnar að vera í fríi saman síðan 14. júlí og það er bara full mikið. Ég held að það hafi verið misráðið að „leyfa“ barninu að hætta á leikskólanum þegar hún byrjaði í sumarfríi. Daman er komin með upp í kok á móður sinni, sem er fullorðin og kann ekkert að leika sér, og dauðlangar á leikskólann eða einhvert þar sem eru börn en ekki fullorðnir. Blessunarlega fer skólinn alveg að bresta á hjá okkur báðum og við getum farið að koma lífinu í eðlilegar skorður. Þá kannski jafnar sig þessi misskilningur í barninu að ég sé drepleiðinleg..... ég er ekki leiðinleg!!!

miðvikudagur, ágúst 20, 2003

Margt hefur verið brallað og mikið hefur gerst síðan ég sló hér inn síðast. Allar fréttir af andláti mínu eru, nú sem endranær, stórlega ýktar. Ég hef einungis legið í dvala, til þess eins að rísa úr öskustónni fílefld og tilbúin í sjö grönd...

Spánardvöl var eins og lög gera ráð fyrir dásamleg. Hitinn var vel yfir því sem eðlilegt og heilbrigt getur talist en við lifðum það af. Fyrri vikuna vorum við ósköp duglegar að flækjast um og skoða. Fara í stuttar lestarferðir í dýragarðinn og vatnsrennibrautir. Við megnuðum jafnvel að fara til Malaga í verslunarleiðangur. Seinni vikunni eyddum við að mestu við sundlaugarbarminn, okkur var einfaldlega ofviða að þramma niður á strönd, eina 300 metra. Enginn sólbrann og engum varð meint af útiverunni enda vorum við duglegar að maka á okkur sólarvörn og koma okkur í skuggan þegar við þurftum þess við.

Þegar maður er með tvær 6 ára dömur í útlöndum sem kunna næstum því að synda, næstum því að tala útlensku og næstum því að gera hér um bil allt tekur maður ekki af þeim augun allan tímann. Það var því kærkomin hvíld þegar þær stöllur voru sofnaðar á kvöldin og við Kristín drifum okkur út á svalir með koníak og sígarettur og höfðum það brjálæðislega huggulegt fram á nótt. Hápunktur ferðarinnar er hins vegar, án efa, „screamerinn“ á hæðinni fyrir ofan. Ég vaknaði við hana fyrstu nóttina en hélt mig hefði hugsanlega verið að dreyma (af því að mig dreymir jú oft og iðulega annað fólk að stunda kynlíf) svo ég minntist bara lítillega á það við Kristínu og síðan var það látið niður falla. Nokkrum nóttum síðar vorum við svo báðar vakandi þegar lætin byrjuðu, og guð minn góður hvílík læti. Húsgögn gengu til og frá, veggirnir nötruðu og daman argaði af öllum lífs og sálarkröftum. Í fyrstu fannst okkur þetta svo yfirgengilegt að við héldum að einhver hlyti að vera að grínast í okkur en hún ákallaði móður sína og guð almáttugan og við sannfærðumst um að henni væri full alvara. Þegar hápunktinum var svo náð tók herrann undir með henni „olei“ og friður komst á í húsinu. Við heyrðum hana veina nokkrum sinnum í viðbót áður en við fórum heim en aldrei eins og þessa nótt.

Ég veit að þetta er gott (mér finnst það líka) en ó mæ god...sumt fólk.

Við komum heim á miðvikudegi til þess eins að leggjast í frekari ferðalög. Að þessu sinni fór Kolfinna Katla bara til pabba síns en ég brunaði alla leið á Dalvík á fiskidaginn mikla. Það fór nú ekki betur en svo að á föstudags kvöld lagðist ég fárveik. Hátíðarhöldin fóru að mestu fram hjá mér, mér tókst þó að sjá Jón Geir, Nönnu, Ingvar bróður, Steina, Kjartan og miklu fleiri stompa á bryggjunni við mikla hrifningu viðstaddra, auk þess sem ég náði að sjá langþráða sýningu leikfélagsins Sýna á Draumi á jónsmessunótt. Afar skemmtilegt og ljónið var ferlega krúttlegt og Bokkarnir og elskendurnir og Spóli auðvitað líka. Á laugardags kvöldið gerði ég heiðarlega tilraun til að fara á ball með pöpunum en veikin sem maður nefni aldrei upphátt, í það minnsta ekki í fjölmenni (nei, ég er ekki með uppköst ehmmm) hrjáði mig svo að ég varð frá að hverfa allt of snemma. Veiki þessi ónefnanlega hráði mig reyndar vel fram eftir vikunni...... afar skemmtilegt, að ég tali nú ekki um sjarmerandi.

Um nýliðna helgi gengu svo vildarvinir mínir hinir mestu Nanna og Jón Geir í það heilaga með miklu pompi og enn meiri prakt (hvað svo sem það nú er). Veislan var stórskemmtileg, eins og gefur að skilja þegar svo margt hæfileikafólk er samankomið. Ekki síst voru það brúðhjónin sjálf sem sýndu hæfileika sínameð söngvum og dansi. Ég held að ekki sé á neinn hallað þó að fullyrt sé að fluttningur Jóns Geirs á „I will allways love you“ (í sömu tóntegund og Whitney Huston) hafi verið toppurinn á skemmtiatriðunum. Enginn var svektur yfir að missa af menningarnótt enda var menningin í Versölum þessa nótt á afar háu plani. Maður sér heldur aldrei neitt á þessari menningarnótt. maður vafrar bara um og missir af hinu og þessu skemmtilegu. Ég missti sko ekki af neinu í þessu brúðkaupi, nema helmingnum af athöfninni.... Takk fyrir upplýsingarnar Tumi minn, og skemmti mér betur en ég hef nokkurntíma gert á menningarnótt.

Hjartanlega til hamingju með hjónabandið elskurnar mínar og takk fyrir mig.

þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Bloggleti stendur til bóta en ég nenni ekki að byrja á því fyrr en ég get gert það almennilega svo í bili segi ég bara: er á lífi, elska ykkur öll og skál fyrir heimsfriði.